154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

sumarlokun meðferðardeildar Stuðla .

[15:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Forseti. Þetta er í annað skiptið á mjög stuttum tíma sem ég beini fyrirspurn til ráðherra Framsóknarflokksins um lokanir á þeirra verksviði og í bæði skiptin bera ráðherrarnir það fyrir sig að það hafi ekki komið formlega inn á þeirra borð að til standi að loka. Það hefur hins vegar alveg legið fyrir lengi að það vantar fjármagn inn í báða þessa málaflokka, bæði til að sinna börnum og ungmennum með hegðunar- og fíknivanda og líka til að sinna þeim hópi sem þjáist af fíknivanda almennt. Það að krafa um sparnað leiði til sumarlokunar er auðvitað eitthvað sem er að gerast á vakt þessara ráðherra og það er ekki heppilegt að menn vísi ábyrgðinni einhvern veginn í þann farveg að ekki hafi verið haft samband eða samráð við viðkomandi ráðuneyti um þetta. Það er mjög mikið verið að tala um farsæld barna. Það er verið að leggja fram frumvörp sem eiga að tryggja farsæld barna. Þetta eru börn og ungmenni sem eru í alveg gríðarlega viðkvæmri stöðu. (Forseti hringir.) Þau mega ekki við því að úrræði sem þjónusta þau loki á sumrin. Ég óttast að það sé orðið of seint að snúa við á þessari braut og ég (Forseti hringir.) vil hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að þetta verði ekki og spyr: Hvernig má það vera að þetta komi hæstv. ráðherra á óvart?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir aftur á takmarkaðan ræðutíma bæði í svörum og fyrirspurnum. )